Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 132/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 132/2021

Þriðjudaginn 20. júlí 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. mars 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2021 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er tæplega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.

Stúlkan fæddist í E og flutti með foreldrum sínum til Íslands í apríl 2019. Afskipti barnaverndaryfirvalda hér á landi af málefnum stúlkunnar hófust 15. apríl 2019 þegar tilkynning barst um vanrækslu gagnvart stúlkunni og um vímuefnaneyslu foreldra. Þann 9. maí 2019 barst Barnaverndarnefnd B gögn frá barnaverndaryfirvöldum í Eþar sem lýst var miklum áhyggjum af aðstæðum barnsins þar sem grunur var á að foreldrar væru í vímuefnaneyslu. Þann 16. júní 2019 barst Barnaverndarnefnd B tilkynning í gegnum Neyðarlínuna og var lögregla kölluð á heimili foreldra stúlkunnar í B þar sem mikil neysla átti sér stað. Í kjölfarið var stúlkan vistuð utan heimilis frá 19. júní 2019 til 8. júlí 2019 hjá móðursystur sinni á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Eftir það hefur stúlkan verið í tímabundnu fóstri hjá F

Í janúar 2021 úrskurðaði Barnaverndarnefnd B að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með 31. janúar 2021, sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. bvl., auk þess sem krafist yrði fyrir dómi að foreldrar stúlkunnar skyldu svipt forsjá yfir stúlkunni, sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. bvl. Með dómi Héraðsdóms G 8. júlí 2021 voru foreldrar stúlkunnar svipt forsjá hennar.

Í janúar 2021 óskaði kærandi eftir því að umgengni færi fram á tíu daga fresti eða til vara aðra hvora helgi og þá yfir nótt. Á meðferðarfundi 10. febrúar 2021 var lagt til að umgengni við kæranda yrði einu sinni á ári undir eftirliti, í september hvert ár, í klukkutíma í senn. Kærandi hafnaði þeirri tillögu og var málið því lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B 22. febrúar 2021 og kveðinn upp úrskurður um umgengni.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni D, við móður sína, A, verði þrisvar sinnum, einu sinni í mars, maí og ágúst. Umgengnin fer fram í gegnum myndsímtal og stendur yfir í allt að 15 mínútur í senn. Málið verður tekið aftur fyrir í lok september 2021.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 23. mars 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 6. apríl 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 20. apríl 2021, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd B til kynningar með bréfi, dags. 23. apríl 2021. Athugasemdir bárust frá Barnaverndarnefnd B með bréfi, dags. 26. apríl 2021, og voru þær sendar lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. apríl 2021. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 14. maí 2021, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd B til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2021. Athugasemdir bárust frá Barnaverndarnefnd B með bréfi, dags. 26. maí 2021, og voru þær sendar lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. maí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hún fái umgengni dagpart á tíu daga fresti, en til vara þá krefst hún umgengni aðra hvora helgi og þá yfir nótt. Til þrautavara krefst kærandi umgengni einu sinni í mánuði. Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að umgengni fari fram í eigin persónu.

Kærandi kveðst hafa verið edrú meira eða minna frá því í maí 2020. Vissulega hafi kærandi hrasað í bindindinu í stutta stund, en það sé eðli fíknisjúkdóms. Kærandi hafi dvalið um tíma á Í en sé nú komin með leiguíbúð að H í G. Kærandi hafi sótt og sæki samkomur hjá Í ásamt því að fara á AA fundi. Kærandi sé nú barnshafandi eftir núverandi kærasta. Kærandi sé í góðu samstarfi við Barnavernd G og félagsþjónustuna í G. Þar sem kærandi sé barnshafandi skili hún reglulega þvagprufum til BarnaverndarG. Kærandi sé að vinna í sínum málum og ekkert bendi til þess að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnsins að umgangast hana með einhverjum hætti.

Í öllum barnaverndarmálum beri að hafa meðalhófsregluna í huga, sem sé að finna í 7. mgr. 4. gr. bvl., og sé svohljóðandi: „Barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.“

Það sé mjög íþyngjandi ráðstöfun að vista barn aðila utan heimilis. Þetta sé mjög íþyngjandi fyrir barnið sjálft. Það sé ekki síður nauðsynlegt að gæta meðalhófs þegar tekin sé ákvörðun um hvernig umgengni skuli háttað. Nauðsynlegt sé að skerða ekki umgengni að óþörfu. Þó svo að barnaverndarnefnd hafi ákveðið að höfða mál til að svipta kæranda forsjá barnsins, sé það mál ekki útkljáð fyrir dómstólum og alls ekkert víst hver niðurstaðan verði í því máli. Þar til niðurstaða fáist í málinu beri barnaverndaryfirvöldum að gera ráð fyrir því að barnið muni fara á nýjan leik til sinna forsjáraðila.

Það að forsjáraðili fái ekki að hitta barnið í eigin persónu sé íþyngjandi og á engan hátt gott fyrir barnið. Með því að sjá kæranda eingöngu á skjá, hvort sem það sé af símaskjá, tölvuskjá eða sjónvarpsskjá, sé mjög ómanneskjulegt og foreldrið verði því aldrei neitt annað en persónan á skjánum. Það sé nauðsynlegt fyrir barn og móður að hittast í eigin persónu.

Ekki verði annað séð en það að úrskurða um umgengni með þeim hætti sem gert hafi verið, það er myndsímtal í þrjú skipti í 15 mínútur í senn, fari gegn meðalhófi, enda mjög svo íþyngjandi ákvörðun. Tíminn sé meira að segja styttri en starfsmenn hafi lagt til.

Í 2. mgr. 74. gr. bvl. sé kveðið á um að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína nema umgengni sé bersýnilega talin andstæð hagsmunum barnsins. Í 3. mgr. sömu greinar sé það áréttað sem fram komi í 68. gr. bvl. að það sé gert ráð fyrir að barnavernd meti þarfir og hagsmuni barnsins, meðal annars með tilliti til sjónarmiða foreldra og viðhorfa fósturforeldra.

Þrátt fyrir að kanna eigi viðhorf fósturforeldra til umgengni hafi verið áréttað í greinargerð með lögunum að niðurstaða máls ráðist sem fyrr af hagsmunum barnsins og rétti þess til að umgangast foreldra sína og aðra nákomna.

Í þessu máli sé því haldið fram í greinargerð starfsmanna að fósturmóðir sé mótfallin frekari umgengni á meðan málið sé til meðferðar. Þessi afstaða komi eingöngu fram í greinargerð starfsmanna. Ekki sé vitað hvernig fósturmóðir komist að þessari niðurstöðu eða hvernig hún fái það út að þessi afstaða hennar til umgengni sé barninu fyrir bestu.

Starfsmenn hafi tekið þá ákvörðun að skipa barninu talsmann og hafi sálfræðingurinn I verið fengin í það hlutverk. Talsmaður hafi skilað inn einhvers konar matsskýrslu en í þessu skjali komi talsmaður með sína skoðun á umgengni og sína eigin afstöðu til varanlegrar búsetu barnsins. Í þessu samhengi sé rétt að vekja athygli á hlutverki talsmanns en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd sé hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess. Út frá þessu sé hægt að gagnálykta á þann veg að það sé ekki hlutverk talsmanns að koma með sínar persónulegu skoðanir eins og talsmaður hafi gert í þessu máli. Hér sé um að ræða um það bil X og X árs gamalt barn. Það sé afar ólíklegt að barnið, sem hafi verið rétt rúmlega X ára er hún hafi hitt talsmann sinn, að hún hafi tjáð talsmanni að hún hefði áframhaldandi þörf fyrir jákvæða tengslamyndun, öryggi og stöðugleika og því gæti hún ekki farið til foreldra sinna. Þar sem matsmaður hafi farið langt út fyrir sitt hlutverk sé ekki hægt að taka mark á honum. Ekki sé vitað hvaða gögn matsmaður hafi fengið aðgang að og svo framvegis.

Barn í fóstri eigi rétt á umgengni við foreldra sína og að sama skapi eigi foreldri rétt á umgengni við barnið nema það sé andstætt hagsmunum barnsins, sbr. 1. og 2. mgr. 74. gr. bvl. Ef neita eigi foreldri um umgengnisrétt með öllu eða ef það eigi að takmarka umgengnisréttinn verulega verði barnavernd að sýna fram á með ótvíræðum hætti að það sé nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Slíkt hafi ekki verið gert í máli þessu. Það liggi engin gögn fyrir sem sýni að það sé andstætt hagsmunum barnsins að hitta kæranda í eigin persónu. Þess skuli geta að kærandi sé reiðubúin til að fara í fíkniefnapróf hvenær sem er.

Í greinargerð með 74. gr. bvl. sé skýrt tekið fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barnsins í hverju máli. Í þessu máli sé enginn rökstuðningur af hálfu barnaverndarnefndar um niðurstöðu sína. Verði ekki séð að nefndin hafi metið hagsmuni barnsins en ljóst sé að þetta barn, sem og flest önnur börn, hafi hagsmuni af því að þekkja til uppruna síns.

Réttur foreldris til umgengni við barn sitt, hvort sem um sé að ræða skammtíma- eða langtímavistun utan heimilis, sé mjög ríkur. Yfirvöld þurfi að sýna fram á að það sé verulega andstætt hagsmunum barnsins ef það eigi að takmarka umgengnina til mikilla muna eða koma í veg fyrir hana. Með því að hafa svo litla umgengni, og að skilyrða að umgengni fari fram í gegnum skjá, sé verið að takmarka umgengnina allverulega. Þær kröfur sem kærandi geri séu varfærnislegar og þá sé kærandi reiðubúin að taka fíkniefnapróf hvenær sem er þannig að barnið sé ekki í nokkurri hættu hjá henni.

Í athugasemdum kæranda, dags. 20. apríl 2021, segir að í greinargerð barnaverndarnefndar sé staða kæranda látin líta út mun verr en hún sé.

Kærandi kveði að barnaverndaryfirvöld í E hafi ekki haft áhyggjur af henni en þær áhyggjur sem hafi verið til staðar hafi snúið að barnsföður hennar. Kærandi kveðst ekki hafa verið í neyslu í E. Þá hafni kærandi því að hún hafi verið í neyslu þann 16. júní 2019 er lögregla hafi komið á þáverandi heimili hennar og barnsföður hennar. Barnsfaðir hennar hafi þá verið í neyslu og hún hafi dvalið annars staðar um tíma með barnið. Hins vegar hafi hún fljótlega eftir þetta fallið í neyslu um tíma. Þá sé rétt að geta þess að kærandi hafi slitið sambandi sínu við barnsföður sinn og sé komin í annað samband.

Kærandi vilji taka það fram að hún sé nú edrú og sé búin að vera edrú um tíma. Hún sé barnshafandi eftir núverandi kærasta. Vel sé fylgst með henni af barnaverndaryfirvöldum í G, en hún sé flutt til G frá B.

Barnaverndarnefnd B hafi nýtt sér Covid til hins ýtrasta til að koma í veg fyrir að kærandi fái að njóta eðlilegrar umgengni við barn sitt. Þar sem barnaverndarnefnd sjái ástæður til að tala um forsjárhæfnismatið, vilji kærandi benda á að hún hafi rætt við matsmann í síma í eitt skipti og látið hann vita að hún væri að fara í meðferð. Þegar fólk sé í meðferð fái það ekki að hafa síma hjá sér. Hann hafi væntanlega hringt á þeim tíma, en á þeim tíma hafi verið slökkt á símanum og kærandi því ekki séð nein ósvöruð símtöl. Í dag hafi Einar Ingi Magnússon sálfræðingur verið dómkveðinn til að framkvæma forsjárhæfnismat á henni og sé sú vinna að hefjast.

Varðandi talsmann sé augljóst að hún hafi ekki fengið stúlkuna til að tjá sig um hvernig hún telji að umgengni eða forsjá eigi að vera, enda sé stúlkan mjög ung að árum. Þá sé augljóst að skýrsla talsmanns sé ekki í samræmi við hlutverk talsmanna.

Þó að lagalega sé skylt að leita álits fósturforeldra, verði að hafa í huga að fósturforeldrar hafi hagsmuni af því að forsjársviptingarmálið fari á tiltekinn veg. Því sé ljóst að fósturmóðir sé ekki hlutlaus í þessu máli og sé fyrst og fremst að gefa sitt álit út frá eigin hagsmunum. Því minni umgengni sem kærandi fái við stúlkuna, því líklegra sé að hún verði svipt forsjá hennar. Fari dómsmálið á versta veg fyrir kæranda þurfi að ákveða umgengni að nýju að því loknu. Fari umgengni á besta veg fyrir kæranda sé stúlkan að öllum líkindum á leið heim til kæranda.

Því sé hafnað að aukin umgengni sé skaðleg stúlkunni. Kærandi sé vel fær um að sinna umgengni. Kærandi sé reiðubúin til að taka vímuefnapróf fyrir og þess vegna eftir umgengni. Þá geri kærandi ekki athugasemdir við boðað eða óboðað eftirlit á meðan á umgengni standi.

Kærandi ítreki að hinn kærði úrskurður sé í andstöðu við tilgang og meginmarkmið barnaverndarlaga. Beita verði þeirri ráðstöfun sem sé barninu fyrir bestu. Það sé stúlkunni fyrir bestu að fá að njóta umgengni við móður sína í samræmi við kröfur kæranda. Þá mótmæli kærandi því að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og barnaréttar hafi verið gætt. Foreldrar og börn sem séu vistuð utan heimilis eigi skilyrðislausan rétt á umgengni, nema umgengni sé bersýnilega anstæð hagsmunum og þörfum barnsins, sbr. 74. gr. bvl.

Í athugasemdum kæranda, dags. 14. maí 2021, er áréttað að barnaverndaryfirvöld í E hafi fyrst og fremst haft áhyggjur af stöðu barnsföður en ekki af kæranda.

Það að kærandi hafi ekki opnað hurðina þann 16. júní 2019 þýði ekki að hún hafi verið í neyslu. Vissulega hafi hún verið á staðnum með stúlkuna en þetta hafi verið hennar heimili. Kærandi kveðist hafa haldið til í öðru rými en faðir, allt til að vernda stúlkuna. Vissulega hafi ástandið á heimilinu ekki verið gott, enda sé erfitt að eiga við mann í neyslu.

Ljóst sé að Barnaverndarnefnd B hafi nýtt sér Covid-19 ástandið til að koma í veg fyrir umgengni í eigin persónu. Í tölvupósti, dags. 20. október 2020, komi skýrt fram að það þurfi að bíða með umgengni í eigin persónu vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Þá komi fram í tölvupósti, dags. 20. apríl 2021, að sökum raða atvika hafi umgengni dregist á langinn. Þannig ljóst sé að barnaverndarnefnd hafi gert allt sem í hennar valdi hafi staðið til að koma í veg fyrir umgengni og þá sérstaklega í eigin persónu. Vel hefði verið hægt að taka Covid próf af kæranda fyrir hverja umgengni.

Varðandi fósturforeldra séu engin rök fyrir því að mótmæla umgengni á meðan málið sé í ferli hjá dómstólum. Rétt sé að taka fram að nú sé vinna hafin við forsjárhæfnismat hjá dómkvöddum matsmanni. Loks sé því mótmælt að umgengni geti orðið stúlkunni skaðleg, en það eigi við engin rök að styðjast.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og ákvörðunin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum stúlkunnar hér á landi hafi hafist 15. apríl 2019 þegar tilkynning hafi borist um vanrækslu gagnvart stúlkunni og um vímuefnaneyslu foreldra. Þann 9. maí 2019 hafi Barnaverndarnefnd B borist gögn frá barnaverndaryfirvöldum í E þar sem lýst er miklum áhyggjum af aðstæðum stúlkunnar þar sem grunur hafi verið á að foreldrar væru í vímuefnaneyslu.

Þann 16. júní 2019 hafi Barnaverndarnefnd B borist tilkynning í gegnum Neyðarlínuna og lögregla verið kölluð á þáverandi heimili foreldra stúlkunnar í B. Í ljós hafi komið að neysla vímuefna hafði átt sér stað og stúlkan verið fjarlægð af heimilinu og vistuð hjá móðursystur sinni, fyrst í þrjá sólarhringa. Sú vistun hafi verið framlengd til 8. júlí 2019 en þá hafi stúlkan farið á fósturheimili. Eftir það hafi stúlkan verið vistuð í tímabundnu fóstri. Fyrsta umgengni eftir að stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis hafi farið fram á meðferðarheimilinu Vík þann 19. ágúst 2019 þar sem fósturmóðir hafi verið viðstödd og undir eftirliti starfsmanns Barnaverndarnefndar B.

Líkt og nánar sé rakið í greinargerð starfsmanns Barnaverndarnefndar B, dags. 18. janúar 2021, sem hafi verið lögð fram fyrir fund Barnaverndarnefndar B 25. janúar 2021, hafi kærandi farið oftar en einu sinni í meðferð eftir að stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis en því miður ekki náð löngum edrútíma í kjölfarið heldur fallið fljótlega aftur í neyslu. Í viðtali við starfsmann barnaverndarnefndar 16. desember 2019 hafi foreldrar samþykkt áframhaldandi vistun stúlkunnar í sex mánuði. Í þessu sama viðtali hafi foreldrar stúlkunnar samþykkt að umgengni færi ekki fram næstu þrjá mánuði.

Í mars 2020 hafi kærandi komið í viðtal hjá starfsmanni barnaverndarnefndar og greint frá því að hún hefði farið í meðferð á Vogi og verið í vikulegu eftirliti. Hún byggi á áfangaheimilinu Í og væri búin að sækja um meðferð á Krísuvík eða í Svíþjóð. Í viðtali við kæranda í júní 2020 komi meðal annars fram að hún hafi farið í meðferð á Vík en ekki lokið meðferðinni þar sem henni hafi lent saman við aðra manneskju í meðferðinni. Í þessu sama viðtali hafi kærandi samþykkt áframhaldandi vistun stúlkunnar í sex mánuði og að undirgangast forsjárhæfnismat. Í þessu sama viðtali hafi kærandi samþykkt að engin umgengni færi fram næstu þrjá mánuði. Kærandi hafi farið aftur inn á Vík í ágúst 2020 og verið þar þangað til í byrjun október 2020 en þá hafi hún flutt á áfangaheimilið Í.

Í september 2020 hafi báðir foreldrar óskað eftir umgengni. Á meðferðarfundi Barnaverndarnefndar B þann 30. september 2020 hafi verið lagt til að umgengni kæranda við dóttur sína færi fram einu sinni í nóvember, í klukkustund, undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu á þessum tíma hafi verið lagt til að umgengnin færi fram í formi myndsímtala á um tíu daga fresti í 10-15 mínútur í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar. Kærandi hafi samþykkt þessa umgengni og hafi hún átt myndsímtal við dóttur sína 29. október 2020. Næsta umgengni hafi átt að fara fram 12. nóvember 2020 en þá hafi kærandi ekki mætt. Þá hafi komið í ljós að kærandi hafi verið fallin og dvaldi ekki lengur á áfangaheimilinu Í.

Ítrekað hafi verið reynt að ná sambandi við kæranda eftir að hún hafi fallið að nýju í neyslu í nóvember 2020 til að kanna stöðuna og árétta mikilvægi þess að forsjárhæfnismat færi fram og að umgengni yrði með þeim hætti sem ákveðin hafi verið. Hvorki starfsmenn barnaverndarnefndar né matsmaður hafi náð sambandi við kæranda. Af þessum sökum hafi aðeins verið framkvæmt forsjárhæfnismat á föður stúlkunnar. Kærandi hafi farið aftur inn á Vog í desember 2020 og dvelji nú á Í. Kærandi sé ófrísk og eigi von á sínu fjórða barni í júlí 2021.

Faðir stúlkunnar hafi verið í fangelsi frá því í mars 2020 og afpláni nú X ára fangelsisdóm. Í viðtali við föður, sem hafi farið fram á K, hafi hann sömuleiðis samþykkt áframhaldandi vistun stúlkunnar í sex mánuði og að undirgangast forsjárhæfnismat.

Þann 28. október 2020 hafi Barnaverndarnefnd B óskað eftir því að I sálfræðingur tæki að sér að vera talsmaður stúlkunnar. Í skýrslu talsmanns, dags. 6. nóvember 2020, komi meðal annars fram að talsmaður mæli með því að stúlkan verði áfram í núverandi fóstri. Enn fremur komi fram að tengsl fósturmóður og stúlkunnar séu góð og fósturmóðir setji skýr mörk. Þann tíma sem stúlkan hafi verið hjá fósturmóður hafi hún byrjað að mynda öryggistengsl við hana.

Á fundi Barnaverndarnefndar B 18. nóvember 2020 hafi starfsmönnum barnaverndarnefndar verið falið að óska eftir því við foreldra að þau afsöluðu sér forsjá stúlkunnar. Með tölvupósti lögmanns föður frá 23. nóvember 2020 hafi því verið hafnað af hálfu föður og kærandi hafi sömuleiðis hafnað því að afsala sér forsjá stúlkunnar, nema stúlkan yrði vistuð hjá systur hennar.

Meðal gagna málsins sé sálfræðileg matsgerð J sálfræðings, dags. 18. janúar 2021. Matið taki eingöngu til föður þar sem kærandi hafi ekki svarað skilaboðum matsmanns og ekki mætt á matsfund. Í matsgerðinni komi meðal annars fram að foreldri í neyslu falli á öllum grunnþáttum í forsjárhæfni. Ljóst sé að stúlkan hafi myndað grunntengsl við aðra aðila en foreldra sína, sé á mjög góðum stað í þroska og virðist líða mjög vel í þeim aðstæðum sem hún sé í í dag. Það sé hætta á því að ef rof yrði á þeim tengslum, sem stúlkan hafi myndað við fósturmóður sína, myndi það valda henni umtalsverðu tilfinningalegu álagi og gæti jafnvel leitt til afturhvarfs í þroska.

Þann 25. janúar 2021 hafi mál stúlkunnar verið lagt á ný fyrir fund Barnaverndarnefndar B. Foreldrar hafi ekki samþykkt að afsala sér forsjá stúlkunnar á fundinum og málið því verið tekið til úrskurðar. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 25. janúar 2021, hafi verið ákveðið að vista stúlkuna áfram utan heimilis í tvo mánuði frá 31. janúar 2021, auk þess að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skyldu svipt forsjá stúlkunnar, sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. bvl. Forsjármál hafi verið þingfest á hendur foreldrum fyrir Héraðsdómi G þann 2. mars 2021.

Í janúar 2021 hafi kærandi óskað eftir því að umgengni við stúlkuna færi fram á tíu daga fresti eða til vara aðra hvora helgi og þá yfir nótt. Á meðferðarfundi barnaverndarnefndar 10. febrúar 2021 hafi verið lagt til að umgengni yrði einu sinni á ári undir eftirliti, í september ár hvert, klukkutíma í senn. Kærandi hafi hafnað þeirri tillögu og málið því verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar B 22. febrúar 2021. Á þeim fundi hafi verið úrskurðað um að umgengni kæranda við dóttur sína yrði þrisvar sinnum á ári, einu sinni í mars, maí og ágúst og að umgengni fari fram í gegnum myndsímtal og standi yfir í allt að 15 mínútur í senn. Þá hafi verið kveðið á um að málið yrði tekið fyrir að nýju í lok september 2021.

Stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis frá 16. júní 2019. Frá þeim tíma hafi kærandi ítrekað fallið í neyslu á ný og meðal annars af þeim sökum hafi umgengni verið takmörkuð. Reynslan hafi sýnt að kærandi geti ekki staðið við að mæta til umgengni vegna neyslu.

Fyrir liggi að fósturmóðir sé mótfallin frekari umgengni á meðan málið sé í núverandi ferli. Fósturmóðir telji að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum barnsins og það sé augljóslega ekki hagsmunir þess að vinna að tengslamyndun við foreldri sem sé ekki til staðar. Afstaða fósturmóður hafi því verið sú að umgengni ætti alls ekki að vera oftar en einu sinni á ári.

Stúlkunni hafi verið skipaður talsmaður í samræmi við 3. mgr. 46. gr. bvl. Því sé alfarið mótmælt að umræddur talsmaður hafi farið út fyrir hlutverk sitt og því sé ekki hægt að taka mark á niðurstöðu talsmannsins. Hið rétta sé að skýrsla talsmannsins sé ítarleg og vönduð þar sem talsmaðurinn dragi ályktanir á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar sem sé byggð á fyrirliggjandi gögnum, heimsóknum á heimili fósturmóður og viðtali við fósturmóður. Skýrslan beri þess merki að um sé að ræða ungt barn og hafi talsmanni, eðli málsins samkvæmt, ekki verið unnt að fá fram sjónarmið stúlkunnar til samvista við foreldra og þess háttar. Tengsl barnsins við umönnunaraðila hafi hins vegar verið metin á klínískan hátt og gefið það mat til kynna að tengsl stúlkunnar við fósturmóður einkennist af trausti og ástríki. Talsmaður hafi metið það mikilvægt að þau tengsl yrðu ræktuð áfram. Þá komi fram að barnið hafi ekki getað treyst á umönnun foreldra sinna og því ekki myndað öryggistengsl við þau.

Barnaverndarnefnd B telji að aukin umgengni kæranda við dóttur sína geti beinlínis verið henni skaðleg. Stúlkan hafi lítil tengsl við kæranda og hafi verið vistuð utan heimilis bróðurpart lífs síns. Á þeim tíma hafi kærandi verið í neyslu vímuefna og farið inn og út úr meðferð sem hafi meðal annars leitt til þess að kærandi hafi ekki getað sinnt reglubundinni umgengni þann tíma sem stúlkan hafi verið í fóstri.

Líkt og rakið sé hér að framan hafi Barnaverndarnefnd B höfðað mál fyrir Héraðsdómi G þar sem þess sé krafist að kærandi verði svipt forsjá dóttur sinnar. Markmið varanlegs fósturs sé að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem hafi tekið að sér uppeldi barnsins. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barns kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð verulega. Slík sjónarmið séu höfð til hliðsjónar við ákvörðun barnaverndarnefndar um hina takmörkuðu umgengni og á því byggt að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun hennar í fóstur. Með því að ráðstafa stúlkunni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa henni nýja fjölskyldu til framtíðar og ekki séu áform um að stúlkan tilheyri fleiri en einni fjölskyldu. Mikilvægt sé að barnið fái að mynda góð tengsl við fósturmóður sína í friði og ró.

Barnaverndarnefnd B telji, gagnstætt því sem haldið sé fram í kæru, að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið barninu fyrir bestu, sbr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefnd byggi á því að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefnd B byggi á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að takmarka umgengni með þeim hætti sem ákveðið hafi verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á barnið og líf hennar. Þá sé umgengnin í samræmi við það markmið að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni. Rétt sé að taka fram að málið verði tekið fyrir í lok september 2021 þar sem umgengni verði endurskoðuð og verði þar vitaskuld horft til þess hvernig hafi gengið hjá kæranda. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og ekki síður til þess að valda ekki öllum hlutaðeigandi óþarfa óþægindum ef kærandi mæti ekki í umgengni, líkt og reynslan hafi sýnt, hafi verið ákveðið að umgengni færi fram í gegnum myndsímtal að svo stöddu. Málið verði tekið fyrir að nýju í lok september og muni þá að sjálfsögðu koma til skoðunar hvort aðstæður séu breyttar hvað þetta varði, bæði hvað varði stöðu kæranda sem og aðstæður í þjóðfélaginu.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið telji Barnaverndarnefnd B að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð. Með hliðsjón af hinum djúpstæða og langvarandi vanda sem kærandi hafi glímt við um langt árabil sé það mat barnaverndarnefndar að ekki sé grundvöllur fyrir tíðari umgengni kæranda við stúlkuna að svo stöddu.

Í athugasemdum barnaverndarnefndar, dags. 26. apríl 2021, er því mótmælt að staða kæranda sé látin líta verr út en hún sé. Í greinargerð barnaverndarnefndar séu atvik málsins reifuð með hlutlausum hætti með vísan í viðeigandi gögn málsins og ályktanir dregnar af gögnunum og staðreyndum málsins að öðru leyti.

Kærandi fullyrði að barnaverndaryfirvöld hafi ekki haft áhyggjur af henni heldur aðeins af barnsföður hennar. Þessi fullyrðing stangist á við gögn málsins. Í gögnum málsins sé vísað til þess að barnaverndaryfirvöld hafi haft áhyggjur af barninu í umsjá beggja foreldra vegna andlegs heilbrigðis þeirra og vímuefnaneyslu. Þá komi fram að foreldrarnir hafi ítrekað ekki mætt á boðaða fundi hjá barnavernd og áhyggjur af barninu séu miklar, meðal annars í ljósi ungs aldurs stúlkunnar.

Kærandi haldi því einnig fram að hún hafi ekki verið í neyslu þann 16. júní 2019 þegar lögregla hafi verið kölluð á heimili hennar og barnsföður. Af lögregluskýrslu, sem fylgi greinargerð barnaverndarnefndar, sé ljóst að neysla hafi verið á heimilinu í umrætt sinn og að foreldrar hafi ekki opnað hurðina fyrir lögreglu. Þetta hafi orðið til þess að lögreglan hafi þurft að fara í gegnum svalir í næstu íbúð til að komast inn í íbúð kæranda og barnsföður hennar. Inni blasti við lögreglumönnum notaðar sprautunálar og barnsfaðir kæranda verið í svo annarlegu ástandi vegna lyfja að kalla hafi þurft til sjúkrabíl. Ekki komi fram í dagbókarfærslu lögreglu hvort kærandi hafi verið í neyslu í umrætt sinn en í öllu falli sé ljóst að hún hafi ekki opnað fyrir lögreglumönnum þegar þeir hafi knúið dyra og verið með stúlkuna í óviðunandi aðstæðum. Hvort sem kærandi hafi sjálf verið í neyslu í umrætt sinn skipti að mati barnaverndarnefndar ekki sköpum fyrir úrlausn þessa máls, enda sé viðurkennt í athugasemdum hennar að hún hafi fljótlega eftir þetta fallið í neyslu um tíma.

Það sé einnig rangt að Barnaverndarnefnd B hafi nýtt Covid-19 faraldurinn til hins ýtrasta til að koma í veg fyrir að kærandi fái að njóta eðlilegrar umgengni við barn sitt. Líkt og gögn málsins beri með sér hafi samþykkt umgengni farið fram nema í þeim tilvikum sem kærandi hafi ekki getað rækt umgengni vegna neyslu sinnar eða ekki látið ná í sig til að skipuleggja umgengni. Hið sama hafi verið uppi á teningnum þegar J sálfræðingur, sem hafi verið falið það hlutverk að leggja mat á forsjárhæfni kæranda, hafi freistað þess að ná sambandi við kæranda í því skyni að boða hana til matsfundar. Þar sem matsmaður hafi ekki náð sambandi við kæranda taki matið eingöngu til barnsföður hennar. Það sé hins vegar rétt sem fram komi í athugasemdunum að undir rekstri forsjársviptingarmáls Barnaverndarnefndar B gagnvart kæranda hafi verið dómkvaddur matsmaður til að leggja mat á forsjárhæfni kæranda.

Hugleiðingum kæranda um fósturforeldra og óhlutlægni þeirra sé mómælt. Í þessu máli liggi fyrir að fósturmóðir sé mótfallin frekari umgengni á meðan málið er í núverandi ferli fyrir dómstólum. Af gögnum málsins sé ljóst að fósturmóðir byggi þessa skoðun sína ekki á eigin hagsmunum heldur á þeirri skoðun að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar og það sé ekki hagur hennar að vinna að tengslamyndun við foreldri sem sé ekki til staðar. Með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi hafi fósturmóðir sett fram þá afstöðu að umgengni eigi ekki að vera oftar en einu sinni á ári.

Af hálfu barnaverndarnefndar sé ítrekað að aukin umgengni við stúlkuna geti beinlínis verið stúlkunni skaðleg, enda hafi stúlkan það lítil tengsl við kæranda og hafi verið vistuð utan heimilis bróðurpart lífs síns. Á þeim tíma hafi kærandi verið í neyslu vímuefna og farið inn og út úr meðferð sem hafi meðal annars leitt til þess að kærandi hafi ekki getað sinnt reglubundinni umgengni þann tíma sem stúlkan hafi verið í fóstri. Undir þessum kringumstæðum og í ljósi þess að nú sé rekið forsjársviptingarmál fyrir dómi telji barnaverndarnefnd að hagsmunir barnsins krefjist þess að umgengni verði takmörkuð verulega.

Í athugasemdum barnaverndarnefndar, dags. 26. maí 2021, kemur fram að varðandi meinta neyslu kæranda 16. júní 2019 telji barnaverndarnefnd að það skipti ekki sköpum fyrir úrlausn þessa kærumáls hvort kærandi hafi sjálf verið í neyslu í umrætt sinn, enda sé óumdeilt í málinu að hún hafi fljótlega eftir þetta tilvik fallið í neyslu á ný. Þá sé því enn og aftur mótmælt að barnaverndarnefnd hafi nýtt sér Covid-19 faraldurinn til að koma í veg fyrir umgengni. Barnaverndarnefnd B hafi einfaldlega farið eftir tilmælum sóttvarnayfirvalda hverju sinni og hagað umgengni í samræmi við þau. Gögn málsins beri með sér að umgengni hafi farið fram nema í þeim tilvikum sem kærandi hafi ekki getað rækt umgengni vegna neyslu sinnar eða hafi ekki látið ná í sig til að skipuleggja umgengni.

Að lokum sé ítrekað að Barnaverndarnefnd B telji að aukin umgengni kæranda við stúlkuna geti beinlínis verið henni skaðleg, enda hafi stúlkan lítil tengsl við kæranda og hafi verið vistuð utan heimilis bróðurpart lífs síns vegna óreglu kæranda. Undir þessum kringumstæðum og í ljósi þess að nú sé rekið forsjársviptingarmál fyrir dómi, telji barnaverndarnefnd að hagsmunir stúlkunnar krefjist þess að umgengni verði takmörkuð verulega, líkt og gert sé í hinum kærða úrskurði.

IV. Afstaða barns

Í skýrslu talmanns kemur fram að talsmaðurinn hafi heimsótt fósturheimilið 2. nóvember 2020 þegar stúlkan var rúmlega X ára gömul. Að mati talsmanns sé staða stúlkunnar á fósturheimili til fyrirmyndar. Fram kemur í skýrslunni að þann tíma sem barnið hafi verið hjá fósturmóður hafi það myndað öryggistengsl við hana. Þá hafi umgengni barnsins við foreldra nánast engin verið og því sé fósturmóðir eina foreldrið sem barnið þekki.

Í skýrslu talsmanns er ekki tekin afstaða til umgengni við foreldra.

V. Sjónarmið fósturmóður

Samkvæmt gögnum málsins er fósturmóður mótfallin aukinni umgengni á meðan málið sé í forsjársviptingarferli. Fósturmóðir telji það augljóslega ekki vera hagsmuni barnsins að vinna í tengslamyndun við foreldra sem ekki séu til staðar. Hún telji að umgengni eigi ekki vera oftar en einu sinni á ári.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er tæplega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 22. febrúar 2021 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna þrisvar sinnum, einu sinni í mars, maí og ágúst. Umgengni færi fram í gegnum myndsímtal og stæði yfir í allt að 15 mínútur í senn. Ákveðið var að málið yrði aftur tekið fyrir í lok september 2021.

Kærandi krefst þess aðallega að hún fái umgengni dagpart á tíu daga fresti. Til vara krefst kærandi umgengni aðra hvora helgi og þá yfir nótt. Til þrautavara krefst kærandi umgengni einu sinni í mánuði. Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að umgengni fari fram í eigin persónu. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við ákvörðun um umgengni þurfi barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmið fósturráðstöfunar. Með vísan til fyrirliggjandi gagna telji barnaverndarnefnd að það séu lítil tengsl barns við kæranda þar sem stúlkan sé búin að vera vistuð utan heimilis í 20 mánuði. Á þeim tíma hafi kærandi verið í neyslu vímuefna og farið inn og út úr meðferð sem hafi leitt til þess að hún hafi ekki getað sinnt reglubundinni umgengni þann tíma sem stúlkan hafi verið í fóstri. Aftur á móti hafi stúlkan myndað góð tengsl við fósturmóður sína og líti á hana sem móður sína. Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn í fóstri rétt á umgengni við foreldra og aðra sem séu því nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. eigi foreldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess í hversu langan tíma fóstri sé ætlað að vara. Í janúar 2021 hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með 31. janúar 2021, sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. bvl., auk þess sem krafist verði fyrir dómi að kærandi og faðir stúlkunnar verði svipt forsjá sinni yfir stúlkunni, sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. bvl. Barnaverndarnefnd B telji að það sé stúlkunni fyrir bestu að vera vistuð utan heimilis til 18 ára aldurs. Það sé mat Barnaverndarnefndar B, þegar allt framangreint sé virt, að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni kæranda við stúlkuna verði þrisvar sinnum, einu sinni í mars, maí og ágúst og að umgengni fram í gegnum myndsímtal í allt að 15 mínútur í senn. Málið verði tekið aftur fyrir í lok september 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Samkvæmt dómi Héraðsdóms G frá 8. júlí 2021 hafa foreldrar stúlkunnar verið svipt forsjá hennar og fer Barnaverndarnefnd B með forsjá hennar til 18 ára aldurs. Hinn kærði úrskurður varðar það tímabil sem stúlkan var í tímabundnu fóstri en hún fór í fóstur í júní 2019, þá rúmlega X mánaða gömul. Úrskurðarnefndin telur að umgengni í formi myndsímtala hafi verið eðlileg þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp en nú sé ekkert því til fyrirstöðu að umgengni geti farið fram með hefðbundnum hætti og þá undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Er í því sambandi meðal annars horft til núverandi aðstæðna kæranda og barns og stöðu heimsfaraldurs vegna COVID-19.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2021 varðandi umgengni D, við A-3569, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

                                                                                                                                                                                            Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum